Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, hefur opinberlega sagst vera ósáttur með vinnubrögð HSÍ og að Haukar hafi ekki viljað fresta leik sínum gegn ÍBV þann 8. nóvember síðastliðinn. Í kjölfarið sendi handknattleiksdeild ÍBV frá sér yfirlýsingu þar sem félagið fordæmdi vinnubrögð Hauka og HSÍ eftir að liðið fékk ekki að fresta leiknum gegn Haukum.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, segir fráleitt að sambandið hafi hótað að reka kvennalið ÍBV úr keppni eins og Sigurður Bragason sagði í viðtali sínu eftir tapið gegn Haukum.
Nú hefur handknattleiksdeild Hauka gefið frá sér yfirlýsingu. Þar vísa Haukar gagnrýni ÍBV „alfarið á bug þar sem málið er ekki á forræði Hauka.“ Þar segir einnig að Haukar hafi vakið athygli á þessu í ágúst og miðjan október þar sem líklegt væri að ÍBV væri í Evrópukeppni á þessum tíma.
„Ekki gekk að fá staðfestan leiktíma og fór ákvörðun til mótanefndar,“ segir í kjölfarið í yfirlýsingunni. Þá taka Haukar fram að „Haukar hafa alltaf komið til móts við lið í Evrópukeppnum og munu gera það áfram.“
Einnig fordæma Haukar það að ÍBV hafi nafngreint Díönu Guðjónsdóttur, annan af þjálfurum liðsins.
„Þá er það miður að þjálfari ÍBV skuli nafngreina Díönu Guðjónsdóttur annan þjálfara Hauka í sinni umræðu og draga heilindi hennar í efa. Það er ómaklegt og ómálefnalegt því Díana er afar fagleg í sínum störfum og hefur ávallt hugað að hagsmunum leikmanna er varðar álag og aðra þætti. Hún ákvarðar hins vegar ekki leiktíma leikja heldur mótanefnd.“
Yfirlýsingu Hauka má sjá í heild sinni hér að neðan.