Aðrir hafa leitað á samfélagsmiðla. Facebook-hópurinn Aðstoð við Grindvíkinga var stofnaður seint í gærkvöldi og eru meðlimir hópsins orðnir tæplega tólf þúsund talsins.
Það var þar sem Sylwia Kunda sá færslu frá manni sem bauð fram parhús sitt á Álftanesi.
„Ég skrifaði til hans og hann sagði ekkert mál, þið getið komið strax. Hann hjálpaði okkur ótrúlega mikið. Við komum strax hingað,“ segir Sylwia.
Átta í heimili
Og þið þekkið þennan mann ekki neitt?
„Nei.“
Og hafið aldrei hitt hann?
„Aldrei, aldrei.“
Sylwia dvelur nú í húsinu ásamt eiginmanni sínum, börnum þeirra sem eru fjögurra og sex ára, foreldrum hennar, bróður og frænku.
„Ég trúði þessu ekki, ég keyrði frá Keflavík til Reykjavíkur og ég trúði þessu ekki. Hvað fólk er gott. Ég þekki marga Pólverja sem eru frá Grindavík og hafa margir fengið hjálp á Selfossi, Þorlákshöfn, Hafnarfirði, Reykjavík,“ segir Sylwia.
Forsetinn kom í heimsókn
Þau voru nýbúin að koma sér fyrir á Álftanesi þegar fréttastofu bar að garði. Skömmu áður hafði enginn annar en forseti Íslands mætt og rætt við fjölskylduna. Sylwia vonast þó eftir að komast aftur heim sem fyrst.

Við erum enn stressuð en samt líður okkur mjög vel. Ég vona að við getum sofið rótt í nótt og ekki verið stressuð um að eitthvað detti á hausinn á okkur.