Selfoss er í neðsta sæti Olís-deildarinnar og voru í heimsókn hjá Þór á Akureyri en Þórsarar eru í 3. sæti í Grill66-deildinni. Leikurinn var jafn og spennandi en gestirnir frá Selfossi náðu áhlaupi undir lok fyrri hálfleiks og voru 16-11 yfir í hálfleik.
Heimamenn gáfust þó ekki upp og voru búnir að jafna í 19-19 eftir tíu mínútur í síðari hálfleik. Eftir það var jafnt á öllum tölum. Aron Hólm Kristjánsson kom Þór í 26-25 með tæpar tvær mínútur á klukkunni en Sæþór Atlason jafnaði fyrir Selfoss skömmu síðar.
Selfyssingar tóku leikhlé eftir að Jón Þórarinn Þorsteinsson í marki þeirra hafði varið skot þegar 19 sekúndur voru eftir. Það var nægur tími fyrir Einar Sverrisson til að tryggja þeim sigurinn en hann skoraði í þann mund sem flautan gall. Lokatölur 27-26 og Selfoss áfram í 8-liða úrslitin.
Víðismenn eru ekki með lið í deildakeppninni en skráðu sig til leiks í bikarnum og tóku á móti Olís-deildar liði Stjörnunnar í kvöld. Leikurinn var aldrei spennandi. Stjarnan leiddi 18-9 í hálfleik og vann að lokum fimmtán marka sigur. Lokatölur 33-18.
Stjarnan fer því áfram í 8-liða úrslit en fleiri leikir fara fram í bikarkeppninni á næstu dögum.