Spennan hefur aukist með hverjum deginum eftir því sem nær dregur fyrsta leik Íslands á HM sem er við Slóveníu á morgun. Þórey Rósa segir daginn í dag hafa komið sér almennilega í gír.
„Dagurinn í dag er svolítið að sparka inn raunveruleikanum. Það eru viðtöl, myndatökur og allskonar. Núna er þetta svolítið: HM er komið. Mér skilst það sé fullt af Íslendingum á leiðinni til Noregs og nú fer þetta allt að keyra af stað,“ segir Þórey Rósa.
Ísland spilaði á Posten Cup í aðdragandanum, sem er stórt æfingamót í Noregi. Þórey segir stærð mótsins hafa virkað vel fyrir leikmenn til að hrista úr sér skrekkinn fyrir stærsta mótið, HM sem fram undan er.
„Þetta var náttúrulega bara stórt mót og stórt svið sem við fengum, í stórum höllum og kepptum við góð lið. Fyrir marga leikmenn var þetta að hrista af sér fyrsta stórleikja skrekkinn. Við náðum að stilla liðið helling saman, sáum hellings möguleika í öllum leikjunum þó svo að þeir hafi ekki unnist,“
„Við komumst allar heilar út úr þessu líka, maður hafði innst inni örlitlar áhyggjur af því. Ég er bara ánægð með þetta. Þetta var góður tími í Lillehammer,“ segir Þórey Rósa.
Ofboðslega stolt
Þórey Rósa er ein aðeins tveggja sem hefur farið á stórmót áður, ásamt Sunnu Jónsdóttur. Hún segir upplifunina allt aðra í dag en var fyrir um áratug síðan, þegar Ísland var síðast á stórmóti.
„EM 2012 var þetta bara þrír leikir og búið, það var mjög stutt. Svo fórum við á HM í Brasilíu, þá var helsti munurinn að það var svo langt í burtu. Það var bara einn frá Stöð 2 og svo átta foreldrar með í ferðinni. Við vorum bara í einhverri búbblu,“
„Internetið var lélegt á hótelinu og ég held ég hafi hringt heim einu sinni í ferðinni. Núna er þetta öðruvísi og ég fagna því. Þetta er bara æði.“ segir Þórey Rósa.
Ákveðin lægð tók við hjá íslenska liðinu eftir stórmótin fyrir um áratug og var Þórey ekki viss um að fá tækifærið til að spila á stórmóti á ný.
„Ég er stolt af því að vera hérna ennþá og að hafa náð þessum árangri að komast aftur með liðinu á stórmót. Ég vissi að við kæmumst þangað en ég viðurkenni að ég var ekkert endilega viss um það fyrir einhverjum árum síðan að ég myndi ná því. Ég er ofboðslega stolt að vera hérna og reyni að þrauka þetta heldri konu hlutverk hérna og gera það vel,“ segir Þórey Rósa.
Ísland mætir Slóveníu í fyrsta leik riðlakeppninnar á HM á morgun. Leikurinn hefst klukkan 17:00 og verður gerð góð skil á Vísi.