Körfubolti

Nablinn tapaði tíu þúsund á granna­slagnum í Garða­bænum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Már Eggertsson fór á kostum á bak við tjöldin í innanbæjarslagnum í Garðabænum.
Andri Már Eggertsson fór á kostum á bak við tjöldin í innanbæjarslagnum í Garðabænum. S2 Sport

Það var mikið um dýrðir í Garðabænum á dögunum þegar fyrsti innanbæjarslagurinn í efstu deild fór fram í bænum.

Stjarnan tók þá má móti litla bróður af Álftanesi og nýliðarnir af nesinu fögnuðu á endanum sigri eftir frábæran framlengdan spennuleik.

Körfuboltakvöld Extra var með sinn mann á svæðinu en Andri Már Eggertsson, betur þekktur sem Nablinn, var mættur með hljóðnemann og kannaði stemmninguna fyrir utan körfuboltavöllinn.

Nablinn ræddi meðal annars við Jón Kr. Gíslason, einn af aðalmönnunum á bak við körfuboltastarfið í Stjörnunni og enn fremur föður leikstjórnanda Álftanesliðsins, Dúa Þórs Jónssonar.

Nablinn smakkaði líka það sem Justin Shouse og fólkið á Just Wingin' It buðu upp á í tilefni stórleiksins.

Andri greip líka tvo kappa úr öðrum íþróttum og plataði þá í keppni í sandpokakasti. Þetta voru Álftnesingarnir Alex Þór Hauksson (fótbolti) og Pétur Árni Hauksson (handbolti).

Það var meira að segja peningur undir og þeir Stefán Árni Pálsson og Tómas Steindórsson í Körfuboltakvöldi Extra höfðu áhyggjur af því að þeirra maður hefði komið út í mínus þetta kvöld enda tapaði hann þarna tíu þúsund karli.

Það má sjá þetta innslag frá Nablanum hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld Extra: Nablinn á innanbæjarslagnum í Garðabæ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×