Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna yfirleitt um sjö,. ég hef reyndar í gegnum tíðina verið frekar mikil B manneskja en er ekki frá því að ég sé að þroskast í meiri A týpu.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Reyni að koma mér úr húsi áður en umferð þyngist. Lendi ég illa í umferðinni þá nýti ég tímann og hringi í systir mína eða einhverja vinkonu sem er líkleg til að vera í sömu stöðu og ég – föst í umferð - og eins gott að nýta tímann vel í skemmtilegt spjall.
Reyni að vera sest við skrifborðið með fyrsta kaffibollann af aðeins of mörgum um klukkan átta. Þá skanna ég yfirleitt fréttasíðurnar á meðan ég vakna betur. Fer yfir skipulag og fundi dagsins, en þrátt fyrir gott skipulag þá geta dagarnir of endað með öðrum hætti en maður ætlar því verkefnið geta stýrst af atburðum sem koma upp þann daginn.“
Hvaða jólagjöf kemur fyrst upp í hugann sem minning um uppáhaldsgjöf úr æsku?
„Það koma reyndar nokkrar i huga, en sem kemur fyrst upp er að amma Heiðveig og afi Gestur gáfu mér allmörg jól í röð bækurnar um Öddu, eftir Jennu og Hreiðar. Minnir reyndar að í lokin hafi ég verið vaxin upp úr bókunum en mér fannst þetta samt eitthvað notalegt. Ég á þessar bækur ennþá. Með bókunum fylgdu ávalt prjónaðir vettlingar og sokkar ásamt suðusúkkulaði.
Ég vissi á þessum árum upp á hár hvað kom úr pakkanum úr sveitinni.Hin amma mín var einkar hagsýn en jafnframt smekkleg og fyrir fermingu gaf hún mér fyrsta kökuhnífinn, vel útflúraðann. Mér fannst lítið til hans koma á þeim tíma, reyndi meira að segja að skipta honum út fyrir eitthvað annað sem Díana litla systir mín fékk en hún féll ekki í gryfjuna, en kökuhnífurinn kom sterkur inn síðar og ég á hann enn.
Reyndar skal það viðurkennast að það kom Brynju eldri systur minni sjaldan á óvart hvað við fengum í jólagjöf, enda stunduðum við það kinnroðalaust að opna alla jólapakka fyrir jól og pakka svo gjöfunum inn aftur.
Við vorum orðnar býsna flinkar við þetta og pössuðum okkar að láta límbandið stemma við það sem við tókum.
Þetta skemmdi stundum aðeins stemninguna því við vissum hvað var í flestum pökkum.
Bestu pakkarnir sem ég hef gefið föður mínum, eru bækur sem hann hafði fengið frá fyrri jólum og voru enn í plasti og einfaldlega pakka þeim inn aftur. Yfirletitt var hann bara þakklátur þótt hann hafi ekkert lesið bækurnar þau jólin frekar en þau fyrri: þetta gekk í nokkurn tíma en hann fékk að minnsta kosti eina bók þrjú jól í röð áður en hann fór að sjá í gegnum þetta. Eftir á að hyggja er ákveðin sjálfbærni í þessu, mæli með þessu.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Verkefnin hjá SFF, Samtökum fjármálafyrirtækja eru afar fjölbreytt og því skemmtileg. Við tökum saman ýmsan samanburð um okkar aðildarfélög við erlend félög, svo sem banka, vátryggingafélög og önnur fjármálafyrirtæki. Við gerum umsagnir umlagafrumvörp og sinnum ýmsum erindum. Nú núlega höfum við komið að samkomulagi við Grindvíkinga um frystingu lána og niðurfellingu vaxta og afborgana.
Við erum í sérstöku átaki er snýr að fjármálalæsi ungs fólks. Við höfum undanfarið ár gefið um 17.000 kennslubækur til kennara og nemenda sem þess óska.
Við vonum að fjármálalæsi komi inn sem skyldufag í aðalnámskrá til að tryggja að öll börn á grunnskólaaldri hafi lært undirstöðuatriði í fjármálalæsi áður en þau fara út í lífið.
Þá erum við í átaki að vara við hvers konar svikum á netinu. Mikilvægt er að fara afar varlega með rafrænu skilríkin sín og gefa aldrei upp bankaupplýsingar sínar nema á öruggum síðum.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég er afar háð dagbókinni minni og þarf að skrá niður fundi, annars get ég verið hálf utan við mig og gleymt hlutum eða fundum. Þá geri ég verkefnalista og reyni að hreinsa hann upp áður en ég fer heim.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni að vera komin upp í rúm um ellefu, en ég lesa alltaf eitthvað áður en ég fer að sofa. Ég er reyndar B manneskja í grunninn og get því alveg verið að gaufast eitthvað fram eftir kvöldi og gleymt mér við eitthvað sem skiptir litlu máli, svo sem sjónvarpsgláp á eitthvað sem er ekki einu sinni skemmtilegt.
En eftir því sem aldurinn færist yfir þá er ég viðkvæmari fyrir svefnleysi og reyni að passa upp á að vera amk komin í ró um ellefu ef ég þarf að vakna um sjö daginn eftir.“