Handbolti

Sig­valdi með fimm þegar Kol­stad fór á toppinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigvaldi Björn skoraði fimm mörk í dag.
Sigvaldi Björn skoraði fimm mörk í dag. Kolstad

Sigvaldi Björn Guðjónsson og félagar hans í Kolstad eru komnir á topp norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik eftir sigur á Bergen í kvöld.

Fyrir leikinn í dag var Kolstad í öðru sæti með jafn mörg stig og Runar og Drammen en hafði leikið tveimur leikjum minna. Bergen var hins vegar í 9. sæti og því búist við þægilegum sigri stórliðs Kolstad.

Fyrri hálfleikur var reyndar jafn og spennandi. Staðan í hálfleik 16-15 fyrir Bergen og gestaliðið var enn í forystu þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en þá tóku leikmenn Kolstad við sér.

Í stöðunni 22-21 fyrir Bergen skoraði Kolstad sjö mörk í röð og náði yfirhöndinni. Eftir það var aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda og heimamenn unnu 38-30 sigur. Kolstad lyftir sér þar með í efsta sæti deildarinnar en liðið virðist vera að rétta úr kútnum eftir erfiða byrjun í haust.

Sigvaldi Björn Guðjónsson var atkvæðamikill í liði Kolstad eins og svo oft áður. Hann skoraði fimm mörk og þar af komu tvö af vítalínunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×