Körfubolti

Setti stigamet en lenti svo í úti­stöðum vegna boltans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo var illur eftir leikinn gegn Indiana Pacers þrátt fyrir að hafa sett stigamet í leiknum.
Giannis Antetokounmpo var illur eftir leikinn gegn Indiana Pacers þrátt fyrir að hafa sett stigamet í leiknum. getty/Stacy Revere

Giannis Antetokounmpo setti félagsmet þegar hann skoraði 64 stig í sigri Milwaukee Bucks á Indiana Pacers, 140-126, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Hann lenti svo í útistöðum eftir leikinn.

Michael Redd átti gamla stigametið hjá Milwaukee en hann skoraði 57 stig gegn Utah Jazz fyrir sautján árum.

Gamla stigametið hans Giannis var 55 stig sem hann setti gegn Washington Wizards í janúar á þessu ári.

Giannis hitti úr tuttugu af 28 skotum sínum í leiknum og skoraði auk þess 24 stig af vítalínunni. Þá tók hann fjórtán fráköst.

Eftir leikinn lenti Giannis í útistöðum við Pacers-menn sem höfðu tekið boltann sem var notaður í leiknum. Hann vildi skiljanlega eiga hann eftir þennan sögulega leik en Pacers-menn höfðu tekið hann frá fyrir nýliðann Oscar Tshiebwe sem skoraði sitt fyrsta stig í NBA í leiknum.

„Við vorum ekki að hugsa um metið hans Giannis svo við tókum boltann. Nokkrum mínútum síðan voru nokkrir leikmenn þeirra komnir inn á ganginn til okkar,“ sagði Rick Carlisle, þjálfari Indiana. „Það voru átök. Ég held að menn hafi ekki látið hnefana tala en framkvæmdastjórinn okkar fékk olnbogaskot í rifbeinin frá þeirra leikmanni.“

Milwaukee er í 2. sæti Austurdeildarinnar með sautján sigra og sjö töp. Indiana, sem hefur komið á óvart í vetur, er í 5. sætinu með þrettán sigra og níu töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×