Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samherja. Þar segir að hjá Drift muni frumkvöðlar og fyrirtæki fá aðstöðu og stuðning við að vinna að hugmyndum sínum, bæði innan og utan landsteinanna.
Þá segir að starfsemi Driftar EA verði lögð áhersla á verkefni á sviði matvælaframleiðslu, heilbrigðis- og lækningavöruframleiðslu, líftækni, hugbúnaðarlausna fyrir sjávarútveg og grænna lausna.
Því er haldið fram að við undirbúning stofnunar félagsins hafi verið haft samráð við erlenda og innlenda aðila á ýmsum sviðum nýsköpunar. Sú vinna mun halda áfram á næstu mánuðum.
„Á þessu ári eru liðin 40 ár frá því gengið var frá kaupum á Samherja hf. og Guðsteini GK breytt í frystitogarann Akureyrina EA. Frá þeim tímamótum hefur Samherji verið með stærstan hluta starfsemi sinnar við Eyjafjörð,“ segir í tilkynningunni. „Hjarta bæjarins. Drift EA er stofnað í tilefni þessara tímamóta og í þakklætisskyni við íbúa og fyrirtæki á starfssvæði Samherja. Tilgangurinn með stofnun Driftar EA er að gefa til baka til samfélagsins en um leið byggja upp ný fyrirtæki og atvinnugreinar á Eyjafjarðarsvæðinu.“
Líkt og áður segir verður starfsemin í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri. Húsið er í eigu fjárfestingafélagsins Kaldbaks, sem er að miklu leiti í eigu sömu aðila og Samherji, en félagið keypti húsið í nóvember á síðasta ári.
„Við höfum alltaf verið með höfuðstöðvar Samherja á Akureyri, gert skip félagsins út héðan og verið með vel búin vinnsluhús á Akureyri og á Dalvík. Nú viljum við skapa frjóan jarðveg fyrir nýsköpun í þessu sögufræga húsi við Ráðhústorgið á Akureyri og styðja þannig enn frekar við uppbyggingu atvinnulífsins í okkar nærsamfélagi,“ er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni í tilkynningunni.