Upplýsingafundur var haldinn í morgun fyrir erlenda fjölmiðla í Hafnarfirði. Fáir sóttu fundinn en nokkur fjöldi fjölmiðlafólks er þó kominn hingað til Íslands vegna eldgossins.
Megías kom til Íslands í gær en hefur ekki enn borið gosið augum. Ólíklegt er að verði að því nema gos hefjist á ný.

„Við reyndum seinni partinn í gær en ferðinni var frestað. Til stendur að reyna aftur í dag en það bendir allt til þess að það sé lítið að sjá,“ segir Megías. Hún hafði þá fengið fregnir af því að gosinu væri lokið.
Hópurinn skoðaði Grindavík í morgun.
„Við sáum stóru sprunguna og maður skilur hættuna sem hefur verið fyrir hendi fyrir íbúa bæjarins,“ segir Megías.
Hún segist hafa orðið fyrir vonbrigðum að missa af gosinu. Hún hafi fjallað um eldgosið á La Palma árið 2021.
„Ég var þar í marga daga og það var mikið sjónarspil. Bæði var atburðurinn mjög áhugaverður en afleiðingarnar um leið hrikalegar.“
Þau keyptu miða aðra leið með það fyrir augum að fjalla um eldgosið í nokkra daga. Nú stefnir í að hún haldi aftur til Spánar á laugardaginn, fyrir jólin. Hún segir áhugann hafa verið mikinn í byrjun þegar vísbendingar voru um eldgos í nóvember.
„Já, áhuginn var mikill. Kollegi minn var hérna í nóvember þegar fyrstu merki um eldgosið sáust. Áhuginn á eldgosum hefur verið mikill síðan gaus á La Palma. Svo munum við eftir eldgosinu 2010 (í Eyjafjallajökli). Við hugsuðum að kannski yrði þetta jafnstórt og því ákváðum við að koma hingað.“