Handbolti

Læri­sveinar Guð­mundar komu sér í undan­úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Fredericia eru komnir í undanúrslit.
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Fredericia eru komnir í undanúrslit. Vísir/EPA

Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans í Fredericia eru komnir í undanúrslit dönsku bikarkeppninnar í handbolta eftir fjögurra marka sigur gegn Skanderborg í kvöld, 26-22.

Lítið var skorað í upphafi leiks og staðan var 2-2 eftir rétt tæplega 15 mínútna leik. Eftir það tóku liðin þó við sér og skoruðu tíu mörk hvor það sem eftir lifði hálfleiks. Staðan var því jöfn þegar gengið var til búningsherbergja, 12-12.

Heimamenn í Fredericia skoruðu svo fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiksins og litu í raun aldrei um öxl eftir það. Mest náði liðið fimm marka forystu í stöðunni 21-16 og Fredericia vann að lokum fjögurra marka sigur, 26-22.

Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia í kvöld og liðið er komið í undanúrslit ásamt GOG og Bjerringbro Silkeborg, en Aalborg og Skjern mætast í seinasta leik átta liða úrslitum síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×