Drengurinn, sem hét Khai Cowley, var með föður sínum á brimbretti þegar hann var bitinn og er talið að hann hafi verið bitin af hvítháf. Samkvæmt frétt Ríkisútvarps Ástralíu segja vitni að drengurinn hafi verið um þrjátíu til fjörutíu metra frá landi þegar hákarlinn beit hann.
Drengurinn var dreginn á land en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.
AP fréttaveitan hefur eftir Peter Malinauskas, forsætisráðherra Suður-Ástralíu, að frá árinu 2000 hafi ellefu manns látið lífið í árásum hákarla.
Þrír hafa látið lífið á þessu ári í Suður-Ástralíu og einn utan ríkisins.
Í maí lést 46 ára kona þegar hún var bitin undan ströndum Suður-Ástralíu. Annar brimbrettakappi lést svo í nóvember þegar hákarl réðst á hann og felldi hann af brimbretti sínu og beit hann. Lík þeirra fundust aldrei.
Til viðbótar við þessar árásir hafa minnst tveir verið bitnir á svipuðum slóðum í haust, samkvæmt frétt ABC. Heimamenn í Suður-Ástralíufylki segja hákörlum hafa fjölgað á svæðinu.
Sextán ára stúlka lét lífið undan ströndum vesturhluta Ástralíu í febrúar þegar hún var bitin af hákarli.
Sky News í Ástralíu ræddi við sérfræðing um fjölgun hákarlaárása við Suður-Ástralíu.