Ein þeirra sem gisti á Austurvelli í nótt var Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir. Hún segir nóttina hafa verið góða.
„Auðvitað er þetta kannski furðulegast staður sem maður hefur tjaldað á. En það var rosalega góð stemning, mikið af fólki í þessu stóra tjaldi fram eftir í samstöðu og samhug, og margir að tjalda. Ég myndi segja að þetta hafi að einhverju leyti verið mjög vel heppnað,“ segir Salvör.

Mikill samhugur hafi verið í fólki, og fjöldi fólks hafi lagt leið sína á Austurvöll til að sýna samstöðu og koma stuðningi sínum til skila.
Áhugi ráðamanna lítill
Tveir Palestínumenn hafa gist á Austurvelli í ellefu nætur, til að ítreka kröfur um fjölskyldusameiningu, sem þegar hafi verið samþykktar, við stjórnvöld. Salvör segir stjórnvöld sýnast hafa lítinn áhuga á málinu.
„Það hefur verið sent opinbert boð frá félaginu Íslandi - Palestínu, Solaris og No Borders um fund með Guðmundi Inga Guðbrandssyni. Hann hefur ekkert svarað því.“
Baráttuandinn muni þó ekki lognast út af.
„Ég er alltaf vongóð, því annars myndi maður ekki vera að gera þetta. Ef maður hefði enga von þá myndi maður bara sleppa því að vera að berjast.“