Joshua lést árið 2021 en naut mikillar aðdáunar út um allan heim. Samkvæmt BBC lögðu tugþúsundir á sig pílagrímsferðir frá Evrópu, Ameríku og Asíu til að vera viðstaddir „kraftaverk“ hans í Nígeríu fyrir aldamót.
Þá fylgdust milljónir með honum framkvæma „kraftaverk“ sín í sjónvarpinu en Scoan hefur verið starfrækt í um fjóra áratugi og nær enn til fjölda fylgjenda út um allan heim í gegnum samfélagsmiðla og sjónvarpsstöðina Emmanuel TV.
Ekkja hans fer fyrir kirkjunni í dag en Scoan hefur ávallt neitað því að nokkuð misjafnt hafi átt sér stað innan safnaðarins.
Um það bil 150 fylgjendur Joshua eru taldir hafa búið með predikaranum í Lagos, sumir í áratugi. Tugir þeirra lýsa því að hafa orðið vitni að eða upplifað líkamlegt ofbeldi og pyntar af hálfu leiðtogans og þá hafa margar konur sakað hann um að hafa nauðgað sér, í sumum tilfellum ítrekað.

„Við héldum öll að við værum í himnaríki en við vorum í helvíti og í helvíti gerast hræðilegir hlutir,“ segir Rae, bresk kona, í samtali við BBC. Hún gekk í söfnuðinn þegar hún var 21 árs og varði tólf árum sem einn „lærisveina“ Joshua í Lagos.
Hún lýsir því að hafa verið haldið í einangrun í tvö ár og nauðgað af Joshua. Ofbeldið sem hún mátti sæta hafi verið svo slæmt að hún hafi nokkru sinni reynt að svipta sig lífi.
Margir þeirra sem dvöldu hjá Joshua voru aðeins táningar þegar þeir gengu í söfnuðinn og í sumum tilvikum Bretanna greiddi hann fargjaldið frá Bretlandi til Lagos.
Jessica Kaimu frá Namibíu segir ofbeldið gegn sér hafa varað í meira en fimm ár. Hún hafi verið sautján ára þegar Joshua nauðgaði henni fyrst og ítrekaðar nauðganir hafi leitt til þess að hún var fimm sinnum látin gangast undir þungunarrof, sem öll voru framkvæmd „í skjóli myrkurs“.
Aðrir segja frá því að hafa verið barðir með svipum og neitað um svefn.
Þess má geta að á meðan BBC vann að rannsókn sinni var skotið á starfsmenn þess við höfuðstöðvarnar í Lagos.