Nýtt hættumatskort byggt á túlkun nýjustu gagna og þróun atburðarásarinnar síðustu daga er í vinnslu hjá Veðurstofunni og verður gefið út síðar í dag. Þetta kemur fram í uppfærðri frétt um aðstæður við Svartsengi og Sundhnjúkgsgígaröðinni á vef Veðurstofunnar.
Þar segir að enn sé það mat vísindamanna að ef til eldgoss komi sé líklegast að að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnjúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Á svipuðum slóðum og gaus 18. desember.
Þá segir að eldgos gæti hafist með litlum fyrirvara. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið myndu koma fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Í aðdraganda gossins 18. desember liðu um 90 mínútur frá því að fyrstu merki sáust þangað til að kvika var komin upp og eldgos hafið.
Í frétt Veðurstofunnar segir að undanfarna hafi skjálftavirkni verið afar væg en ef kvika færi að leita til yfirborðs megi fólk búast við því að skjálftavirknin samfara því yrði svipuð og sást í aðdraganda gossins 18. desember, bæði hvað varðar stærð skjálfta og fjölda þeirra.
Áhrif þeirrar skjálftavirkni myndi gæta bæði í Svartsengi og í Grindavík. Miðað við stöðuna núna, er afar talið ólíklegt að skjálftavirknin verði eins öflug og þegar kvikugangurinn stóri myndaðist 10. nóvember.