Körfubolti

Miami Heat lætur gera styttu af Wade fyrir utan höllina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade varð þrisvar sinnum NBA-meistari með Miami Heat.
Dwyane Wade varð þrisvar sinnum NBA-meistari með Miami Heat. Getty/Ronald Martinez

Dwyane Wade fær af sér bronsstyttu fyrir utan höllina hjá Miami Heat. Hann er af flestum talinn vera besti leikmaðurinn í sögu félagsins og er sá fyrsti hjá því sem fær styttu.

Pat Riley lét Wade og stuðningsmenn Miami Heat vita um styttugerðina í gær en heimahöll liðsins ber nú nafnið Kaseya Center. Wade var tekinn inn í Heiðurshöll körfuboltans á síðasta ári og árið 2020 fór treyjan hans upp í rjáfur á höllinni í Miami.

Myndhöggvararnir Omri Amrany og Oscar Leon munu gera styttuna. Amrany hefur mikla reynslu af slíkum styttum en hann vann líka við styttur af Michael Jordan, Shaquille O'Neal, Dirk Nowitzki og Kareem Abdul-Jabbar.

Styttan af Wade verður síðan vígð næsta haust.

Wade setti körfuboltaskóna upp á hilluna eftir 2018-19 tímabilið. Hann á mörg félagsmet hjá Miami Heat þar á meðal yfir flest stig, flestar stoðsendingar, flesta stolna bolta, flesta leiki og flestar spilaðar mínútur.

Hann spilaði fimmtán af sextán tímabilum sínum í NBA með Miami Heat. Wade varð þrisvar sinnum NBA meistari með félaginu og var kosinn bestur þegar félagið vann sinn fyrsta titil árið 2006.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×