Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Þar segir að búast megi við því að rennsli þar fari hægt minnkandi næstu daga þar til hlaupinu svo lýkur.
„Frá miðnætti 15. janúar hefur jarðskjálftamælirinn á Grímsfjalli sýnt aukinn hátíðnióróa, en hann er talinn tengjast suðu í jarðhitakerfinu í Grímsvötnum sem gjarnan kemur fram í lok jökulhlaupa. Sambærilegur órói hefur mælst í síðustu Grímsvatnahlaupum sem ekki hafa hleypt af stað eldgosi,“ segir í tilkynningunni.
Ákafrar aukningar í skjálftavirkni myndu mælast ef til eldgoss kæmi í Grímsvötnum en lítil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu.
„Veðurstofan mun ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að fylgjast náið með Grímsvötnum,“ segir í tilkynningunni.