Fótbolti

Gazzetta dello Sport: Juventus mun reyna við Albert í júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson hefur gert frábæra hluti með Genoa á þessu tímabili og er þegar kominn með átta mörk.
Albert Guðmundsson hefur gert frábæra hluti með Genoa á þessu tímabili og er þegar kominn með átta mörk. Getty/Emmanuele Ciancaglini

Stærsta íþróttablað Ítalíu, Gazzetta dello Sport, birti mynd af Alberti Guðmundssyni í Juventus búningi á samfélagsmiðlum í gærkvöldi.

Ástæðan er að blaðið hefur heimildir fyrir því að Juventus hafi mikinn áhuga og muni reyna að fá Albert til liðsins í sumar.

Albert hefur farið á kostum með Genoa í Seríu A á þessu tímabili og er kominn með átta mörk og tvær stoðsendingar í átján fyrstu leikjunum.

Í frétt blaðsins kemur fram að Genoa ætli ekki að selja Albert í janúarglugganum af því að hann sé svo mikilvægur fyrir liðið.

Hluti af skýringunni sé einnig sú að Juventus hafi ekki peninginn tiltækan í dag sem þarf í það að kaupa leikmann eins og Albert.

Juventus er með augun á Alberti en hvort að félagið kaupi hann í sumar mun skýrast betur á næstu mánuðum og hvort að félagið fái alvöru pening fyrir Federico Chiesa.

Það er ljóst á þessu að Genoa mun ekki selja íslenska framherjann nema að fá góðan pening fyrir hann. Það verður hins vegar spennandi að sjá framvindu mála hjá Alberti enda eru fleiri lið en Juventus sögð hafa áhuga á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×