Netanjahú tilkynnti þess afstöðu sína á blaðamannafundi í gær þar sem hann hét því jafnframt að innrásin á Gasa haldi áfram þar til „alger sigur“ hefur náðst. Hann bætti því við að það fælist í því að uppræta Hamas-samtökin alveg og endurheimta ísraelska gísla, sem gæti tekið marga mánuði í viðbót.
Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa hafa nærri 25 þúsund fallið frá upphafi árása Ísrael í október og 85% prósent íbúa strandarinnar eru sögð á vergangi.
Ísraelar hafa sætt nokkrum þrýstingi, sérstaklega undanfarnar vikur, að setjast við samningsborðið og draga fram tveggja ríkja lausnina. Bæði andstæðingar Ísrael hafa verið í þessum flokki en líka bestu bandamenn, það er að segja Bandaríkin.
Tveggja ríkja lausnin felst í því að Ísrael og Palestína lifi í sátt og samlyndi og hefur þessi lausn verið til umræðu í nokkra áratugi. Flestir hafa vonast til þess að ráðamenn í Ísrael sjái það að tveggja ríkja lausnin sé sú eina, í bili að minnsta kosti, sem er í boði til að stöðva blóðbaðið sem nú er á Gasa.
Netanjahú virðist þó síður en svo viljugur til að láta undan. Hann sagði á blaðamannafundinum í gær að Ísrael verði að ráða ríkjum á öllu því landi sem finna megi vestan Jórdanár, sem telur auðvitað landsvæði Palestínu.
„Þetta er nauðsynleg krafa og er í andstöðu við hugmyndina um palestínskt fullveldi. Hvað annað á að gera? Ég hef sagt amerískum vinum okkar þetta og ég hef líka lokað á allar tilraunir þeirra til þvinga okkur í aðstæður sem myndu stofna öryggi Ísraels í hættu,“ sagði Netanjahú.
Orð Netanjahú koma ekkert sérstaklega á óvart enda hefur hann á öllum sínum stjórnmálaferli mótmælt Palestínuríki. Í síðasta mánuði lýsti hann því til dæmis stoltur yfir að hann hefði komið í veg fyrir stofnun Palestínuríkis hefði hann getað það.
Það kemur hins vegar á óvart að hann skuli mótmæla afstöðu Bandaríkjanna svo harkalega opinberlega. Bandaríkin hafa undanfarna mánuði verið fremst í flokki til að verja rétt Ísraels til varna en eftir því sem mannfall á Gasaströndinni hefur aukist og aðstæður þar verða skelfilegri hafa vestræn stjórnvöld kallað eftir því að Ísrael haldi aftur af sér.