Fótbolti

Toney snýr aftur til keppni sem fyrir­liði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ivan Toney snýr aftur eftir langt bann í dag.
Ivan Toney snýr aftur eftir langt bann í dag. Vísir/Getty

Ivan Toney stígur aftur inn á keppnisvöllinn þegar Brentford tekur á móti Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í dag eftir langt bann vegna brota á veðmálareglum. Hann mun bera fyrirliðabandið í leiknum.

Síðasti keppnisleikur framherjans var þann 6. maí á síðasta ári, fyrir 259 dögum síðan. Þá mátti Brentford þola 1-0 tap gegn Liverpool, en eftir það var Toney dæmdur í átta mánaða bann fyrir fjöldamörg brot á veðmálareglum ensku úrvalsdeildarinnar.

Framherjinn mun nú loksins snúa aftur á völlinn þegar Brentford og Nottingham Forest mætast síðar í dag og segir Thomas Frank, þjálfari Brentford, að Toney sé vægast sagt spenntur.

„Hann getur ekki beðið. Það er eins og hann sé í U-8 ára liðinu að fara að spila,“ sagði Frank á blaðamannafundi í gær. „Ég sé leikmann sem er virkilega spenntur að sína aftur hvað í sér býr.“

„Hann mun byrja leikinn á morgun og verður fyrirliði liðsins. Ég er viss um að hann sé tilbúinn.“

„Hann er einstakur karakter og frábær manneskja til að hafa í kringum sig. Hann kemur með góða orku, bros og jákvæðni. Það er risastórt að fá hann aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×