Þetta kemur fram í framhaldsákæru á hendur Dagbjörtu Guðrúnu Rúnarsdóttur sem fréttastofa hefur undir höndum. Hún er er grunuð um að bana tæplega sextugum karlmanni á heimili sínu í Bátavogi.
Í upprunalegri ákæru málsins er margvíslegum áverkum um líkama mannsins lýst, en þar segir að „samþættar afleiðingar áverkanna voru þær að [maðurinn] lést“.
Í framhaldsákærunni segir hins vegar að maðurinn hafi látist af „völdum köfnunar vegna ytri kraftverkunar á hálsinn og efri öndunarveginn en blæðing innvortis og beinmergjarblóðrek vegna beináverka, átti sinn skerf í spillandi áhrifum á súrefnisnæringu til heilans og var þannig til þess fallið að stuðla enn frekar að framvindu köfnunarferlisins.“
Að öðru leyti er upprunaleg ákæra málsins sú sama. Framhaldsákæran var lögð fram við þingfestingu málsins síðastliðinn föstudag, en þar greindi Dagbjört frá afstöðu til sakarefnanna. Hún neitar sök.
Dagbjörtu, sem er á 43 aldursári, er gefið að sök að hafa orðið manninum að bana og beita hann margvíslegu ofbeldi aðdraganda andlátsins, en það á að hafa staðið yfir í tvo daga. Hún er sögð hafa sparkað í manninn, beitt þrýstingi á andlit hans, klof, bol, handleggi og fótleggi. Þá á hún að hafa tekið manninn föstu hálstaki og snúið upp á fingur hans.
Tveir aðstandendur mannsins krefja Dagbjörtu hvort sig um átta milljónir króna í miskabætur. Við þingfestingu málsins í dag hafnaði Dagbjört einnig því að hún bæri bótaskyldu.
Meðal gagna í málinu eru myndbönd og hljóðupptökur tekin á síma hins látna og Dagbjartar. Myndefnið er sagt vera um tvær og hálf klukkustund að lengd.
„Á myndböndunum má sjá og heyra kærðu valda brotaþola ítrekuðum líkamsmeiðingum,“ segir í úrskurði í málinu. Þá hefur komið fram að nágrannar Dagbjartar hafi heyrt læti og öskur úr húsinu dagana á undan.