Fótbolti

Inter endur­heimti topp­sætið með leik til góða

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lautaro Martinez (t.v.) hættir ekki að skora
Lautaro Martinez (t.v.) hættir ekki að skora EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Inter Milan er aftur komið í efsta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar eftir 1-0 sigur á útivelli gegn Fiorentina. 

Lautaro Martínez hélt áfram að raða inn mörkum fyrir Inter. Hann skoraði fyrsta og eina mark leiksins með skalla á 14. mínútu eftir góða hornspyrnu á nærstöngina frá Kristjan Asllani. 

Martínez er markahæstur í ítölsku úrvalsdeildinni með 18 mörk, Dusan Vlahovic fylgir honum eftir með 12 mörk og svo kemur Oliver Giroud með 10 mörk. Albert Guðmundsson er svo, ásamt fleirum, í 4. sæti með 9 mörk. 

Fiorentina fékk tækifæri til að jafna í seinni hálfleik en Yann Sommer gerði vel í að verja vítaspyrnu Nicolás González. 

Sigurinn fleytti Inter Milan upp í efsta sæti deildarinnar. Þar sitja þeir nú, einu stigi ofar en Juventus, með leik til góða. Fiorentina er í 5. sæti, tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti. 

Inter Milan og Juventus mætast svo í toppslag ítölsku deildarinnar næsta sunnudag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×