Fótbolti

Luton valtaði yfir Brighton og Palace snéri taflinu við gegn botnliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elijah Adebayo hlóð í þrennu fyrir Luton.
Elijah Adebayo hlóð í þrennu fyrir Luton. Alex Pantling/Getty Images

Nýliðar Luton unnu ótrúlegan 4-0 sigur er liðið tók á móti Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Á sama tíma vann Crystal Palace 3-2 sigur gegn botnliði Sheffield United.

Heimamenn í Luton byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti gegn Brighton og Elijah Adebayo kom liðinu yfir strax á fyrstu mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Chiedozie Ogbene forystu Luton áður en Adebayo bætti öðru marki sínu og þriðja marki Luton við stuttu fyrir hálfleikshléið.

Adebayo var hins vegar ekki hættur og hann fullkomnaði þrennu sína á 56. mínútu. Reyndist það seinasta mark leiksins og niðurstaðan varð 4-0 sigur Luton sem lyfti sér upp úr fallsæti með sigrinum. 

Luton er nú með 19 stig í 17. sæti deildarinnar eftir 21 leik, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið. Brighton situr hins vegar í áttunda sæti með 32 stig.

Þá vann Crystal Palace góðan endurkomusigur er liðið tók á móti botnliði Sheffield United. Ben Brereton Diaz kom gestunum í Sheffield United yfir strax á fyrstu mínútu áður en Eberechi Eze jafnaði metin fyrir heimamenn eftir rétt rúmlega fimmtán mínútna leik.

James McAtee kom gestunum aftur yfir á 20. mínútu, en aftur jafnaði Eze fyrir heimamenn og staðan var því 2-2 þegar flautað var til hálfleiks.

Það var svo Michael Olise sem reyndist hetja heimamanna þegar hann tryggði liðinu 3-2 sigur með marki á 67. mínútu.

Crystal Palace situr nú í 14. sæti deildarinnar með 24 stig eftir 22 leiki, en Sheffield United situr sem fastast á botninum með tíu stig.

Að lokum gerðu Fulham og Everton markalaust jafntefli er liðin mættust á Craven Cottage. Úrslitin þýða að Everton situr nú í fallsæti með 18 stig eftir 22 leiki, einu stigi frá öruggu sæti. Fulham situr hins vegar í 12. sæti með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×