Fótbolti

Newcastle aftur á sigurbraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Miðvörðurinn Fabian Schär gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö fyrir Newcastle.
Miðvörðurinn Fabian Schär gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö fyrir Newcastle. Neal Simpson/Sportsphoto/Allstar via Getty Images

Eftir fjóra tapleiki í röð í ensku úrvalsdeildinni vann Newcastle sterkan 3-1 sigur er liðið heimsótti Aston Villa í kvöld.

Miðvörðurinn Fabian Schär var allt í öllu í sóknarleik gestanna í fyrri hálfleik og hann kom liðinu yfir á 32. mínútu áður en hann tvöfaldaði forystu liðsins aðeins fjórum mínútum síðar og sá til þess að Newcastle fór með 2-0 forystu inn í hálfleikshléið.

Gestirnir komust svo í 3-0 snemma í síðari hálfleik þegar Àlex Moreno varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Heimamenn vöknuðu þó loksins til lífsins þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka og Ollie Watkins minnkaði muninn fyrir Aston Villa á 71. mínútu. Watkins hélt svo að hann hefði skorað annað mark heimamanna stuttu síðar, en hann var rétt fyrir innan varnarlínu Newcastle og markið því dæmt af vegna rangstöðu.

Nær komust heimamenn ekki og niðurstaðan varð því 3-1 sigur Newcastle sem nú situr í sjöunda sæti deildarinnar með 32 stig eftir 22 leiki, níu stigum minna en Aston Villa sem situr í fjórða sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×