Fótbolti

Fótboltamaður skotinn til bana í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Jáuregui spilaði lengi Atlético San Luis Rey liðið.
Sergio Jáuregui spilaði lengi Atlético San Luis Rey liðið. Fésbók/Atlético San Luis Rey

Við heyrum hverja fréttina á fætur annarri um óöld og ofbeldi í Mexíkó og menn virðast hvergi vera öruggir, ekki einu sinni inn á fótboltavellinum.

Knattspyrnumaðurinn Sergio Jáuregui var skotinn til bana þar sem hann var að spila fótbolta í Mexíkó.

Hann var þarna að spila vináttulandsleik í hádeginu á sunnudegi. Atvikið varð í borginni Cuautla sem er suður af Mexíkóborg.

Mexíkanskir miðlar hafa sagt frá atvikinu og hafa fengið atburðarásina frá vitnum.

Jáuregui fór að fá sér vatn við bekkinn þegar byssumaður veittist að honum og skaut hann sex sinnum.

Skotmaðurinn flúði síðan í burtu á mótorhjóli sem beið eftir honum við innganginn á vellinum.

Það voru viðbragðsaðilar á svæðinu en þeir áttu enga möguleika á því að bjarga Jáuregui sem lést strax af sárum sínum.

Jáuregui spilaði lengi fyrir mexíkanska fótboltaliðið Arroceros de Cuautla sem er frá þessu sama svæði þar sem morðið var framið.

Fyrrum félag hans, Atlético San Luis Rey, þar sem hann var lengi fyrirliði, hefur minnst hans á miðlum sínum. 

„Við hörmum andlát okkar fyrrum leikmanns og fyrirliða Sergio Jáuregui. Við vottum allri fjölskyldunni hans okkar dýpstu samúð. Við kunnum að meta hvernig þú varðir skjöldinn okkar og skildir allt eftir á vellinum í hverjum leik. Þú munt alltaf eiga stað í hjarta okkar og hlut í sögu félagsins. Hvíldu í friði, vinur,“ sagði á síðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×