Fótbolti

Klinsmann rekinn í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Suður-kóreska landsliðið tapaði á móti Jórdaníu í síðasta leiknum sínum undir stjórn Jürgen Klinsmann.
Suður-kóreska landsliðið tapaði á móti Jórdaníu í síðasta leiknum sínum undir stjórn Jürgen Klinsmann. Getty/Simon Holmes

Suður-kóreska knattspyrnusambandið rak í nótt Jürgen Klinsmann úr starfi landsliðsþjálfara eins og stjórnarmönnum sambandins hafði verið ráðlagt í gær.

Hinn 59 ára gamli Klinsmann var aðeins búinn að vera í starfinu í eitt ár en hann var samt með samning fram yfir næstu heimsmeistarakeppni sem fer fram árið 2026.

Sérstök ráðgjafanefnd hafði ráðlagt sambandinu að láta Klinsmann fara eftir að liðið komst ekki í úrslitaleikinn í Asíukeppninni á dögunum. Liðið féll út í undanúrslitunum á móti Jórdaníu.

Undir stjórn Klinsmann, frá 27. febrúar 2023 til 15. febrúar 2024, þá lék suður-kóreska landsliðið átján leiki og vann átta þeirra eða 44,4 prósent. Liðið gerði sjö jafntefli og tapaði þremur leikjum. Liðið var með 19 mörk í plús, skoraði 38 mörk en fékk 19 mörk á sig.

Klinsmann var með 59 prósent sigurhlutfall með þýska landsliðinu og 56 prósent sigurhlutfall með bandaríska landsliðinu.

Klinsmann varð sem leikmaður bæði heimsmeistari og Evrópumeistari með Þýskalandi á sínum tíma.

Hann hætti að spila árið 2004 og tók fljótlega við þýska landsliðinu sem hann stýrði á HM á heimavelli árið 2006. Liðið vann bronsið undir hans stjórn en hann hætti tveimur árum síðar.

Klinsmann þjálfaði líka bandaríska landsliðið í fimm ár og var þjálfari þess þegar Aron Jóhannsson valdi bandaríska landsliðið yfir það íslenska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×