Al Nassr vann 3-2 sigur á Al Shabab í leiknum en Ronaldo skoraði markið sitt úr vítaspyrnu á 21. mínútu. Brasilíumaðurinn Talisca skoraði hin tvö mörkin þar á meðal sigurmarkið undir lokin.
Ronaldo fékk hins vegar harða gagnrýni fyrir hegðun sína eftir leikinn. Handabendingar hans fóru fyrir brjóstið á fólki. ESPN segir frá.
Eftir lokaflautið sást Ronaldo setja hendina sína upp að eyranu fyrir framan stuðningsmenn Al Shabab áður en hann bauð upp á klúrt látbragð. Ronaldo pumpaði hnefanum margoft fram fyrir framan mjöðmina sína.
Stuðningsfólk Al Shabab hafði reynt að pirra Ronaldo í leiknum með því að kalla nafn Messi, erkióvin hans frá Argentínu. Þetta hafði augljós áhrif á Portúgalann sem þarf nú að hlusta á Messi köllin í tíma og ótíma í leikjum sínum.
Atvikið náðist ekki á sjónvarpsmyndavélarnar en margir í stúkunni voru með símann á lofti og myndbönd birtust á samfélagsmiðlum.
Margir hafa kallað eftir því að Ronaldo verði refsað fyrir hegðun sína. Knattspyrnusamband Sádi-Arabíu hefur hafið rannsókn á málinu samkvæmt frétt blaðsins Asharq al-Awsat.
Messi has ruined Ronaldo s mental health pic.twitter.com/0fGxKNX5jJ
— J (@Shadygize) February 25, 2024