Biden sagðist byggja vonir sínar á upplýsingum frá þjóðaröryggisráðgjafa sínum en á sama tíma hafa erlendir miðlar greint frá því að árangur hafi náðst í vopnahlésviðræðunum eftir að Ísraelar breyttu afstöðu sinni gagnvart því að láta lausa palestínska fanga dæmda fyrir alvarleg brot.
Viðræðurnar hafa verið leiddar af embættismönnum frá Katar, Egyptalandi og Bandaríkjamönnum en New York Times segir þær hafa strandað á því að Ísraelsmenn hafi ekki viljað láta palestínumenn lausa sem hafa verið dæmdir fyrir morð né viljað semja um varanlegt vopnahlé.
Nú ku það hins vegar hafa breyst, þar sem samningamenn Ísraels eru sagðir hafa fallist á tillögu Bandaríkjamanna sem kveður á um að Hamas sleppi fimm ísraelskum hermönnum, allt konum, gegn því að Ísraelsmenn láti lausa fimmtán einstaklinga sem sitja í fangelsi fyrir hryðjuverktengd brot.
Hamas-samtökin hafa ekki tjáð sig um tillöguna, samkvæmt New York Times.
Önnur atriði, á borð við lengd vopnahlésins, eru enn til umræðu.
Um 100 gíslar eru enn í haldi Hamas og ofangreind tillaga Bandaríkjamanna er sagður þáttur í umfangsmeiri tillögu sem kveður á um lausn 40 fanga, þeirra á meðal veikra og særðra.
Tillaga Bandaríkjanna er sögð ganga út á nokkurs konar reikniformúlu sem áður hefur verið notuð; fyrir hverja konu sem Hamas sleppir lætur Ísrael þrjá fanga lausa, sex fyrir hvern mann 50 ára og eldri og tólf fyrir hvern veikan eða særðan mann. Þá fæst einn „hátt skrifaður“ Palestínumaður í haldi Ísraels og fimmtán aðrir fyrir hvern og einn hermann sem Hamas sleppa.
New York Times hefur eftir einum heimildarmanni að leiðtogi Hamas á Gasa, Yahya Sinwar, sé opnari fyrir því nú en áður að semja um tímabundið vopnahlé, í þeirri von um að það verði varanlegt.