Í færslu stofnunarinnar á Facebook segir að mengunin sem fólk hefur fundið fyrir sé blanda af mengun frá nýja hrauninu við Grindavík og frá útblæstri virkjunarinnar í Svartsengi.
Þá daga sem ábendingar hafa borist hafi mælar ekki sýnt mikla brennisteinstvíoxíðsmengun úr nýja hrauninu. Mælar hafi sýnt brennisteinsvetni frá virkjuninni í Svartsengi. Það gas hafi meira afgerandi lykt.
Gas frá hrauninu geti hins vegar hvarfast yfir í brennisteinsagnir. Þær geti verið ertandi í háls fyrir viðkvæma.
Umhverfisstofnun búi yfir góðu gasmælaneti á Suðurnesjum en verið sé að vinna í því að þétta net svifryksmæla sem skynja brennisteinsagnir.