Kaup danska fyrirtækisins Coloplast á íslenska fyrirtækinu Kerecis fyrir um hundrað og áttatíu milljarða króna á síðasta ári vöktu mikla athygli. Fyrirtækið hefur um árabil framleitt á Ísafirði sáraroð sem notuð eru til meðferðar gegn brunasárum og öðrum þráðlátum sárum. Ýmsir veltu fyrir sér áhrifum þess að fyrirtækið væri selt útlensku fyrirtæki í fyrra en nú um átta mánuðum síðar hefur starfsmannafjöldinn aukist verulega.
„Á tólf mánaða tímabili hefur hann að því sem næst tvöfaldast og þetta eru allskonar störf allt frá framleiðslustörfum á gólfinu upp í sérfræðingastörf á skrifstofu,“ segir Hálfdán Bjarki Hálfdánsson framleiðslustjóri Kerecis á Ísafirði.
Þá er framleiðsla og sala á vörunum töluvert meiri en áður.
„Hérna í þessum tveimur litlu framleiðslueiningum okkar á Ísafirði voru framleiddar vörur sem voru seldar fyrir sirka fimmtán sextán milljarða á síðasta fjárhagsári og við stefnum á, hratt umreiknað, svona tuttugu og sjö átta milljarða á þessu fjárhagsári.“
Hálfdán segir fyrirtækið leggja mikla áherslu á að styðja við samfélagið á Ísafirði.
„Ef það er ekki blómlegt samfélag hérna þá fáum við ekki fólk til að koma hingað. Þá fáum við ekki fólk til að vera hérna. Þannig að hlutir eins og knattspyrnudeild Vestra, ekki bara meistaraflokkur heldur líka barnastarfið, hjólastólaaðgengi að Alþýðuhúsinu sem við erum að kosta og núna síðast en ekki síst Aldrei fór ég suður. Allt þetta helst í hendur bara til þess að gera blómlegt og lífvænlegt samfélag sem að skiptir okkur gríðarlega miklu máli.“