Anh-Dao er fædd og uppalin í Víetnam en flúði til Bandaríkjanna árið 1975 þegar hún var sextán ára gömul en hefur búið á Íslandi síðan árið 1984. Hún er aðjunkt og nýdoktor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og hefur fengið fálkaorðu fyrir sín störf í þágu nýrra Íslendinga. Í rannsóknum sínum hefur Anh-Dao beint sjónum sínum að samfélagi innflytjenda á Íslandi, að mestu leyti Víetnama.
Fyrstu flóttamennirnir frá Víetnam komu hingað árið 1979 en síðustu ár hefur innflytjendum þaðan fjölgað ört. Árið 2013 voru þeir 550 talsins en fjöldinn hefur tvöfaldast síðan þá og eru þeir 1223 í dag. Anh-Dao segir aðlögun Víetnama hér ekki ósvipaða þeirra sem koma frá öðrum löndum.
„Við viljum í fjölmenningarsamfélagi frekar að fólk haldi þeirra tungumáli og menningu. Ég held að margir Víetnamar sem koma seinna hafa gert það. Börnin fara í skóla, læra íslensku en halda áfram að tala víetnömsku,“ segir Anh-Dao.
Hún segir algengt að fólk frá Víetnam flytji til annarra landa og sendi pening heim. Hún hefur þó ekki heyrt af mansali eins og eigandi Vy-þrifa, Davíð Viðarsson, er sakaður um. Hún óttast að atvikið geti ýtt undir fordóma gegn fólki frá Víetnam.
„Það er alltaf eitthvað um fordóma. Og þegar svona mál kemur upp gefur það fólki meiri afsökun til að vera með fordóma gegn Víetnömum. En þetta rosalega neikvæða mál er mjög góð afsökun fyrir fólk með fordóma til að bæta við þá,“ segir Anh-Dao.