Átján einstaklingar hafa meldað sig til leiks og boðað forsetaframboð. Það hafa þeir gert með því að stofna til meðmælasöfnunar fyrir forsetaframboð. Aðeins frambjóðandi sjálfur getur stofnað til slíkrar meðmælasöfnunar.
Nú eru átján mættir til leiks sem slíkir. Einn sá nýjasti á lista er Kristján Jökull Aðalsteinsson einkaþjálfari en hann var um hríð fastur gestur í útvarpsþættinum Harmageddon þar sem hann kynnti sig sem hægri mann. Bragi Páll Sigurðsson þá blaðamaður Stundarinnar sló því upp að hann hafi haft uppi ógnandi tilburði við Hildi Lilliendahl femínista. Meðal annars með einkaskilaboðunum: „Vantar einn svona harðan til að útrýma þessum öfgafemínistum.“
Auk þeirra átján sem hafa stofnað til undirskriftasöfnunar er talið nánast öruggt að Baldur Þórhallsson prófessor fari fram. Alma Möller landlæknir hefur verið orðuð við framboð sem og Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur og forstjóri. Þá er þrálátur orðrómur um að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra láti slag standa en hún hefur ekki verið afdráttarlaus í svörum þar um.
Framboðsfrestur rennur út 26. apríl. Eftirfarandi eru komnir á lista yfir þá sem boða forsetaframboð:
- Agnieszka Sokolowska
- Arnar Þór Jónsson
- Axel Pétur Axelsson
- Ástþór Magnússon Wium
- Borgþór Alex Óskarsson
- Eyjólfur Reynisson
- Guðmundur Sveinn Bæringsson
- Húni Húnfjörð
- Ingibjörg Jóhannsdóttir
- Ísfold Kristjánsdóttir
- Jón Kjartansson
- Jón T Unnarson Sveinsson
- Kristján Jökull Aðalsteinsson
- Malgorzata Adamczyk
- Oliver Þórisson
- Sigríður Hrund Pétursdóttir
- Snorri Óttarsson
- Tómas Logi Hallgrímsson