Það mátti reikna með hörkuleik í kvöld enda ÍBV í 4. sæti og Haukar sæti fyrir ofan. ÍBV byrjaði mun betur en gestirnir rönkuðu við sér og náður að minnka muninn niður í eitt mark í blálok fyrri hálfleiks. Staðan 16-15 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Sóknarleikur gestanna var hvorki fugl né fiskur í síðari hálfleik en Haukar skoruðu aðeins átta mörk og misstu ÍBV alltaf lengra og lengra fram úr sér. Á endanum vann ÍBV góðan sex marka sigur, 29-23.
Sigurinn þýðir að ÍBV er nú með 22 stig í 4. sæti á meðan Haukar eru með 28 stig þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Efstu tvö lið deildarinnar, Valur og Fram, fara beint í undanúrslit á meðan liðin í 3. til 6. sæti berjast um hin tvö lausu sætin í undanúrslitum.
Sunna Jónsdóttir var markahæst í liði ÍBV með 7 mörk. Þar á eftir komu Birna Berg Haraldsdóttir og Sara Dröfn Ríkharðsdóttir gerðu 6 mörk hvor. Í markinu varði Marta Wawrzykowska 12 skot.
Hjá Haukum var Elín Klara Þorkelsdóttir markahæst með 6 mörk á meðan Ragnheiður Ragnarsdóttir skoraði 4 mörk.