Að sögn Röggu er mikilvægt að rækta sambönd sem hafa róandi áhrif á taugakerfið í stað þeirra sem ýta undir streitu, ótta og kvíða.
Sultuslök eða tilbúin í baráttu?
„Það allra besta fyrir taugakerfið okkar er annað fólk. En samtímis er annað fólk það allra versta fyrir taugakerfið. Því við getum annaðhvort eytt tíma með fólki og sósað okkur uppúr og niðurúr í vellíðunarhormónum af serótónín, dópamíni og oxýtócini. Erum sultuslök og glöð eins og sprengsaddur hvítvoðungur eftir brjóstagjöf. Upplifum ást, samþykki, samkennd og finnumst við vera og gera alveg nóg,“ segir Ragga í færslu á Facebook og heldur áfram:
„Eða við getum átt sambönd og samskipti sem marinera okkur í kortisóli, adrenalíni og noradrenalíni, tætt og tjásuð í streitukerfinu. Stöðugt í varnarham með alla vöðva grjótspennta tilbúin í baráttu, og taugarnar þandar í ótta og kvíða.“
Lokaðu á neikvæð sambönd
Ragga segir mikilvægt að einblína á sambönd sem næra okkur á jákvæðan og uppbyggilegan máta og loka á þau sem draga úr okkur.
„Sía út fólk sem mergsýgur batteríið okkar og vanvirða mörkin okkar ítrekað. Eru á sjálfshátíð í hvert skipti sem þið hittist og spyrja ekkert út í þína hagi. Eyða miklum tíma með fólki sem nærir og gefur orku, hlustar af athygli, veitir ráðleggingar ef við biðjum um það og tékkar reglulega á hvernig við höfum það,“ segir Ragga.
„Samböndin okkar geta annað hvort sett taugakerfið lóðrétt á felguna föst í spennitreyju, eða vafið því í dúnmjúka sæng með heitt kakó á kantinum og Kenny G á fóninum. Þess vegna þurfum við að velja af kostgæfni hverjum við eyðum tíma með svo taugakerfið okkar sé í meira stuði en miðaldra saumaklúbbshópur á sjöunda búbbluglasi í sumarbústaðaferð.“