Innlent

Telur ó­lík­legt að hraunið nái að Suðurstrandarvegi

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Jón Haukur hefur staðið vaktina í síendurteknum jarðhræringum á Reykjanesskaga. Myndin var tekin þegar gaus í desember á síðasta ári.
Jón Haukur hefur staðið vaktina í síendurteknum jarðhræringum á Reykjanesskaga. Myndin var tekin þegar gaus í desember á síðasta ári. Vísir/Vilhelm

Verkfræðingur hjá Eflu segir ólíklegt að hraunrennsli nái að Suðurstrandavegi og út í sjó. Aðeins voru um 150 metrar í að hrauntungan sem rann í vesturátt að Svartsengi næði að hitaveitulögn, en rennslið virðist hafa stöðvast.

Hraunið var svo tillitsamt að stoppa hérna rétt fyrir ofan Svartsengislínuna og Njarðvíkuræðina,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu. Hann ræddi við Kristján Má Unnarsson fréttamann á Reykjanesi fyrir stundu. 

Jón Haukur segir að aðeins hafi verið um 150 til 200 metrar þar til hraunbreiðan færi yfir Njarðvíkuræðina líkt og gerðist í síðasta gosi í febrúar. 

„En hún var öll orðin jörðuð og frágengin, þannig að í raun og veru höfðum við ekkert miklar áhyggjur af henni því það var búið að verja hana.“

Telur að Suðurstrandavegur sleppi

Jón Haukur segir að ekki hafi orðið vart við hreyfingu á hrauninu síðan í morgun og því megi segja að  innviðir í Svartsengi hafi alveg sloppið við skemmdir, að frátöldum Grindavíkurvegi. Ekkert sé því til fyrirstöðu að gera annan bráðabirgðaveg yfir hraunið fljótlega, líkt og gert var eftir síðasta gos. 

Enn er nokkur óvissa um hrauntunguna sem rennur í átt að Suðurstrandarvegi en Jón Þór hefur ekki miklar áhyggjur af því.

„Það mjakast mjög rólega þar. Að öllu óbreyttu er langlíklegast að það sleppi bara alveg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×