Heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem er undir stjórn Hamas, segir eld hafa brotist út við innganginn að sjúkrahúsinu og valdið köfnun meðal barna og kvenna. Búið sé að skera á allar samskiptaleiðir og fólk sé fast inni á bráðadeildum.
Ráðuneytið segir aðgerðirnar þegar hafa valdið dauða og meiðslum og það sé engin leið til að koma fólki út, þar sem skotið sé á alla sem nálgast. Á sama tíma segir herinn að skotið hafi verið á hermenn frá byggingunni þegar þeir freistuðu þess að ráðast inn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ísraelsher ræðst inn á al-Shifa, sem er stærsta sjúkrahús Gasa. Eftir áramót hefur herinn ítrekað gert árásir á skotmörk þar sem áður var talið að búið væri að uppræta Hamas.
Daniel Hagari, talsmaður hersins, segir aðgerðirnar nú ekki krefjast þess að heilbrigðisstarfsmenn og sjúklingar séu fluttir á brott en þeim verði gert það kleift engu að síður.
Fjöldi fólks sem hefur neyðst til að flýja heimili sín hefst nú við í nágrenni við sjúkrahúsið en Hagari segir að þegar herinn um kringdi svæðið hafi verið skotið á hermenn frá byggingunni. Þeir hafi skotið til baka og virst hæfa skotmörk sín.
Samkvæmt vitnum og lýsingum á samfélagsmiðlum greip um sig mikil hræðsla þegar herinn mætti á staðinn í skjóli myrkurs. Loftárásir eru sagðar hafa verið gerðar á svæðið og skriðdrekar umkringt sjúkrahúsið.
Ísraelsmenn hafa sakað Hamas-samtökin um að skýla sér á bakvið almenna borgara og skipuleggja bardagamenn sína frá stjórnstöðvum á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Þessu hafa Hamas-liðar neitað.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði um helgina að Ísraelsmenn væru enn staðráðnir í því að ná markmiðum sínum, að tortíma Hamas, og að enn stæði til að ráðast inn í Rafah í suðurhluta Gasa.