Íslenski boltinn

„Þessir tveir mánuðir voru gríðar­lega erfiðir“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það verður skrýtið fyrir Gylfa að horfa á leik kvöldsins í sjónvarpinu.
Það verður skrýtið fyrir Gylfa að horfa á leik kvöldsins í sjónvarpinu. Vísir/Vilhelm

Gylfi Þór Sigurðsson þreytti frumraun sína með Val gegn ÍA í Lengjubikarnum í gær. Síðustu mánuðir hafa verið honum strembnir og þá verður skrýtið fyrir hann að vera ekki með landsliðinu í kvöld.

Gylfi Þór yfirgaf Lyngby í Danmörku í janúar eftir að hafa meiðst. Hann hélt til Spánar hvar hann æfði einn og sinnti endurhæfingu ásamt sjúkraþjálfaranum Friðriki Ellert Jónssyni sem fylgdi honum út. Eftir nokkrar vikur af þeim æfingum komst hann í smá fótbolta á æfingum hjá Fylki og svo Val sem fóru í æfingaferð ekki langt frá honum á Spáni.

Hann var staðráðinn í því að ná sér fyrir landsleikina sem fram undan eru en var að endingu ekki valinn í hóp Åges Hareide. Hann segir þetta hafa verið strembinn tíma.

„Ég var í sjúkraþjálfun í nóvember og desember og æfði eitthvað. En ekkert gekk. Í lok janúar ákvað ég að fara í heitara loftslag og æfa á grasi. Þá byrjuðu hlutirnir að ganga og gátu ekki gengið betur fyrir sig eftir að ég byrjaði æfa úti. Ég var ánægður með það,“

„En ég viðurkenni það að þessir tveir mánuðir voru gríðarlega erfiðir því ég vissi ekki hvort þetta yrði ein vika eða fimm mánuðir. Það var svona erfiðast í þessu,“ segir Gylfi.

Vonar innilega að Ísland fari alla leið

Það voru því heldur einmanalegir mánuðir hjá Gylfa á Spáni áður en hann komst á æfingar hjá íslensku liðunum þar ytra. Það voru Gylfa þá vonbrigði að vera ekki í hópnum sem spilar í Ísrael í kvöld og verður skrýtið fyrir hann að horfa á leikinn á sófanum.

„Ég er bara þannig gerður að mig langar að spila fyrir Ísland þó að maður sé meiddur. Ég var alltaf að fara að gera allt, bæði fyrir mig persónulega til að ná mér góðum, og til að ná landsleikjunum. Eftir á að hyggja er jákvætt að maður sé óánægður að vera ekki í hópnum. Þegar manni er alveg sama held ég að sé gott að fara að hætta,“ segir Gylfi.

Hvernig verður að fyrir þig að horfa á leikinn? Er enn eftirsjá af því að vera ekki á staðnum?

„Að sjálfsögðu. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur og sem íþróttamaður vill maður vera í stærstu leikjunum og þar sem er mest pressa og mest undir. Það verður mjög spennandi og mjög erfitt að fylgjast með leiknum en auðvitað vonar maður innilega að við förum alla leið,“ segir Gylfi.

Fréttina má sjá í spilaranum að ofan.

Ísland mætir Ísrael í umspili fyrir EM klukkan 19:45 í kvöld. Leikurinn verður sýndur beint í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport en upphitun hefst klukkan 19:10.


Tengdar fréttir

„Það er kannski ekkert gáfulegt“

Gylfi Þór Sigurðsson segist treysta sér til að spila meira í kvöld en honum ef til vill leyfist. Hann mun þreyta frumraun sína fyrir Val gegn ÍA í Lengjubikarnum.

Flestir spenntir fyrir Gylfa en ekki allir

Mikil spenna virðist vera á meðal Valsara vegna komu Gylfa Þórs Sigurðssonar til liðsins. Púlsinn var tekinn meðal almennings í Valsheimilinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×