Enski boltinn

Ó­lög­legt tíma­móta­mark kom City á bragðið gegn United

Sindri Sverrisson skrifar
Khadija Shaw og Lauren Hemp fagna eftir þriðja markið gegn Manchester United í dag.
Khadija Shaw og Lauren Hemp fagna eftir þriðja markið gegn Manchester United í dag. Getty/Barrington Coombs

Það eru stórleikir í úrvalsdeild kvenna í fótbolta á Englandi þessa helgina og hún hófst á Manchester-slagnum í dag þegar Manchester City vann Manchester United, 3-1.

Sigurinn kom City-konum á topp deildarinnar en United er ansi langt frá toppnum, í 4. sæti.

Það var hin 22 ára gamla Jessica Parker sem kom City í 2-0 með tveimur fyrstu deildarmörkum sínum fyrir liðið, í fyrri hálfleik. Fyrra markið hefði reyndar aldrei átt að standa, vegna rangstöðu.

Strax í upphafi seinni hálfleiks bætti hin jamaíska Khadija Shaw við þriðja marki City, og sínu sautjánda marki í vetur en hún er markahæst í deildinni. Litlu máli skipti þó að Kerstin Casparij skoraði sjálfsmark, sem minnkaði muninn í 3-1, og bláa liðið í Manchester gat fagnað vel í leikslok.

Með sigrinum náði City þriggja stiga forskoti á Chelsea á toppi deildarinnar og eru liðin núna með jafna markatölu, en Chelsea á leik til góða við West Ham í Lundúnaslag á morgun. United er hins vegar í 4. sæti með 28 stig eftir 17 leiki, nú 15 stigum á eftir City. 

United á þó enn möguleika á titli í ár en liðið mætir Chelsea í undanúrslitum enska bikarsins í næsta mánuði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×