Hann hitaði upp fyrir æfingu liðsins í Búdapest í gær en liðið færir sig yfir til Wroclaw í Póllandi í dag og mætir Úkraínu á þriðjudagskvöldið.
„Við erum bara með sjálfstraustið í botni, og sérstaklega eftir síðasta leik. Þetta verður aftur á móti töluvert erfiðari leikur og töluvert meiri stemning í Úkraínumönnunum í Póllandi heldur en á móti Ísrael þannig að þetta verður alvöru verkefni, en til að komast á stórmót þá þarft þú að spila erfiða leiki og vinna þá.“
Jóhann Berg segir að það að liðið hafi skorað fjögur mörk í síðasta leik sé ástæða til þess að mæta með kassann út í leikinn á þriðjudaginn.
„Alltaf gott að skora fjögur mörk og sýnir það að við erum með gríðarlega sterka menn sóknarlega. Leikmenn sem geta gert gæfumuninn. Við þurfum líka að verjast sem lið og mér fannst við gera það vel mestmegnis á móti Ísrael en við þurfum að gera það enn betur gegn Úkraínu.“
Albert Guðmundsson skoraði þrennu gegn Ísrael á fimmtudagskvöldið. Jóhann þekkir það vel sjálfur hvernig það er að skora þrennu fyrir Ísland og gerði hann það í Bern í Sviss árið 2013.
Hér að neðan má sjá mörk Alberts Guðmundssonar gegn Ísrael á fimmtudaginn. Hans önnur þrenna fyrir Ísland.
En hvor þrennan er flottari?
„Ég held að það vita allir að mín þrenna er töluvert flottari en Alberts var ágæt líka.“
![](https://www.visir.is/i/D3E8BDC76DC51E2A1BEC1C7E35E51C3B68227A3558F4781F78F924260EDE7B75_713x0.jpg)
Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.