Dagbjört segir samtökin stefna á að halda þennan dag árlega. „Frændi minn dó á þessum degi úr sjúkdómnum,“ segir Dagbjört og að þau hafi verið mjög náin. Hann hafi aðeins verið 55 ára og hlakkað til að verða afi. Það sé ástæðan fyrir því að þessi dagur, 26. mars, hafi orðið fyrir valinu.
Hún segir að gert sé ráð fyrir því að athöfnin í kirkjunni verði um 40 mínútur að hámarki. Eftir það verði lagðar rósir við kirkjuna fyrir hvern sem hefur fallið úr fíknisjúkdómi. Eftir það taki Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, við og flytur „örvarp“.
„Hann fer með örvarp út í lofið og segir falleg orð út í kosmósið á sama tíma og við myndum hálfhring um tröppurnar,“ segir Dagbjört.
SAOF eru ný samtök sem voru stofnuð seint í fyrra. Að samtökunum standa þau Gunnar Ingi Valgeirsson, sem er með hlaðvarpið Lífið á biðlista, Guðlaug Baldursdóttir og Dagbjört Ósk Steindórsdóttir, sem báðar eru aðstandendur. Samtökin stóðu fyrir baráttufundi í desember og stofna nú þennan árlega minningardag.