Stefán Árni Pálsson íþróttafréttamaður ræddi við stuðningsmenn landsliðsins í Wroclaw síðdegis þar sem upphitun var vel á veg kominn. Hann hitti meðal annars þá félaga Þorstein Magnússon og Kára Sturluson.
Þorsteinn sagði ákvörðunina um að skella sér hafa verið skyndiákvörðun í Rúmfatalagernum klukkan fimm í gær. Kári sagðist hafa grætt andvirði ferðarinnar í veðmáli fyrir leikinn gegn Ísrael síðastliðinn fimmtudag.
Kári veðjaði á að Albert Guðmundsson myndi skora þrennu og að lokatölurnar yrðu 4-1 fyrir Ísland. Hann græddi tæplega hundrað þúsund krónur sem dugðu fyrir miðanum út. „Heppinn í spilum en óheppinn í ástum,“ sagði Kári og hló.

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 26. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.