Næstsíðasta umferð Olís-deildar karla var spiluð í kvöld. Mikið var af áhugaverðum leikjum enda mikið undir í fjölda leikjanna. FH vann Gróttu með sjö mörkum á Seltjarnarnesi og tryggði sér þar með deildarmeistaratitilinn þar sem Valur tapaði gegn KA, lokatölur á Akureyri 34-29.
HK lagði Stjörnuna með sex marka mun í Garðabæ, lokatölur þar 28-34. Sá sigur þýðir að félagið heldur sér í deild þeirra bestu þar sem Afturelding lagði Víking 27-25 í Mosfellsbæ og Haukar unnu níu marka sigur á Selfyssingum sem eru einnig fallnir, lokatölur á Ásvöllum 33-24.
Að endingu vann ÍBV öruggan sigur á Fram í Vestmannaeyjum, lokatölur 34-25. Stöðuna í deildinni má finna á vef HSÍ.