Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um þessa einstöku flugvél. Hún var smíðuð í Boeing-verksmiðjunum í Seattle í Washington-ríki og var eintak númer 273. Boeing smíðaði alls 1049 eintök af 757-vélinni á árunum 1982 til 2004.

Hún kom fyrst til Íslands þann 10. apríl árið 1990, fór útsýnisflug yfir Reykjavík áður en hún lenti í Keflavík en Guðlaugur Helgason flugstjóri og áhöfn hans flugu henni heim.

Við komuna gaf borgarstjórafrúin Ástríður Thorarensen henni nafnið Hafdís. Önnur samskonar vél bættist fljótlega í flotann en 757-þoturnar leystu í fyrstu DC-8 þoturnar af hólmi í rekstri Icelandair.

Þegar Icelandair frumsýndi nýtt útlit flugvéla sinna árið 1999 var það Hafdís, TF-FIH, sem fyrst var sýnd í nýju litunum við athöfn í flugskýli félagsins á Keflavíkurflugvelli. 757-þoturnar voru þá orðnar burðarásinn í millilandaflugi Íslendinga.
TF-FIH þjónaði sem farþegavél í sextán ár en árið 2006 var henni breytt í fraktvél fyrir Icelandair Cargo og bætti þá enn við sautján árum. Það er nánast hægt að bera lotningu fyrir þessari flugvél en rekstrarár hennar hjá Icelandair urðu rúmlega 33.

En núna hefur TF-FIH lokið hlutverki sínu. Síðasta flug hennar fyrir Icelandair var í ágúst, hún stóð óhreyfð í Keflavík fram eftir vetri en var um síðustu áramót flogið til Arizona í flugvélakirkjugarðinn Pinal Airpark við borgina Marana.
Leifur Magnússon verkfræðingur, fyrrverandi framkvæmdastjóri flugrekstrar- og tæknisviðs Icelandair, kom að kaupum 757-vélanna og innleiðingu þeirra hjá félaginu.

„Þær komu náttúrlega einstaklega vel út fjárhagslega. Okkur tókst þessi fyrstu ár að reka þessar vélar þannig að við vorum með heimsmet í árlegum nýtingartíma, allt upp í og yfir 5.000 tíma á ári. Meðalnýtingartími á svona vélum var þá í kringum 2.500 tíma,“ segir Leifur.
Þær hafa núna þjónað félaginu í 34 ár, lengur en nokkur önnur tegund, og eiga enn nokkur ár eftir.

„Þannig að það er algert met. Næst í röðinni er gamli þristurinn, sem var hérna í 28 ár. Boeing 727 var í 23 ár og DC-8 í 20 ár. Þetta eru eiginlega allt aðrar tölur,“ segir Leifur.
757-þotur hafa verið vinnutæki Lindu Gunnarsdóttur, yfirflugstjóra Icelandair, í yfir tuttugu ár. Hún segir tegundina farsæla. Hún sé kraftmikill vinnuhestur, sem þurfi stutta braut.

„Hún er með mjög stóran væng. Hún er með kraftmikla mótora og hún er ofboðslega áreiðanleg,“ segir Linda.
Flugfreyjum líkar við hana.

„757 er bara heima, ef það er hægt að kalla það. Mér líður alltaf best hérna, það er bara þannig,“ segir Ásgerður Óskarsdóttir, yfirflugfreyja hjá Icelandair.
„Mjög gott vinnuumhverfi og gott að vinna í henni. Þetta er svona mitt uppáhald,“ segir Ásgerður.
Og flugvirkjarnir meta hana.

„Þetta eru bara súpervélar. Ábyggilega með því besta sem hefur verið framleitt. Þessi er bara númer eitt,“ segir Kristján Þór Svavarsson, sem starfað hefur sem flugvirki hjá Icelandair í 43 ár.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: