Hin 22 ára gamla Clark hefur verið mikið í fréttum undanfarið enda verið að gera hluti sem hafa varla sést áður.
Hún endaði háskólaferil sinn þegar lið hennar, Iowa Hawkeyes, tapaði fyrir Suður Karólínu-háskólanum í úrslitum, 87-75. Skoraði Clark 30 stig í leiknum en á háskólaferli sínum skoraði hún meira en 3900 stig.
„Öll geta séð áhorfstölurnar. Þegar þær fá tækifærið þá hafa kvennaíþróttir blómstrað og það er það svalasta við vegferð mína til þessa,“ sagði Caitlin eftir leik.
„Við byrjuðum tímabilið á að spila fyrir framan 55 þúsund manns. Við endum það á að spila fyrir framan samtals 15 milljónir. Þetta verður bara betra og mun aldrei stoppa.“
Clark trúir einnig að ef lagt er jafn mikið í kvennaíþróttir og karla þá muni þær halda áfram að blómstra. Það mun ýta kvennaíþróttum enn lengra í framtíðinni að hennar mati.
„Fólk mun muna eftir augnablikinu sem það deildi með börnunum sínum yfir leikjunum okkar. Það man eftir því hversu spenntur krakkinn var að sjá okkur spila. Það er frekar töff, það eru hlutirnir sem skipta mig mestu máli.“
The Phoenix Mercury are marketing their game against the Indiana Fever as The GOAT vs. The Rook before Caitlin Clark has been drafted. pic.twitter.com/XhH8K789Nl
— Front Office Sports (@FOS) April 8, 2024
Clark mun þó ekki spila aftur í háskólaboltanum heldur í WNBA-deildinni. Talið er næsta öruggt að hún fari fyrst í komandi nýliðavali og muni því spila með Indiana Fever á komandi leiktíð. Þá gæti hún farið með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikana í París síðar á árinu.