Árshátíð Landsvirkjunar var haldin á Egilsstöðum liðna helgi. Hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 300 starfsmenn en gestir á árshátíðinni voru samtals um 450. Þar af var hátt í 300 manns flogið frá Reykjavík með leiguþotu sem Landsvirkjun leigði af Icelandair. Kostnaður við árshátíðina var í kringum 100 milljónir króna og var meðal annars gagnrýndur í umræðum á Alþingi í gær.
Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta hjá Landsvirkjun, tjáði Vísi í gær að Landsvirkjun hefði ekkert að fela né skammast sín fyrir varðandi árshátíðina. Þá tók hún fram að árshátíðin skilaði nærsamfélaginu á Egilsstöðum tugum milljóna.
Tækjabúnaður keyrður á staðinn frá Reykjavík
Hinrik Svansson er rekstrarstjóri HS kerfa sem er hljóðkerfa- og ljósaleiga staðsett á Akureyri. Hann gefur lítið fyrir orð Þóru varðandi staðhæfingu hennar um að peningarnir verði mikið til eftir á svæðinu. Hann gagnrýnir að Landsvirkjun hafi aðalega verslað við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og flutt tæki og tól þaðan í stað þess að leita til viðburðastofa og tækjaleiga á Norðurlandi.
„Á Akureyri starfa bæði Viðburðastofa Norðurlands og HS Kerfi sem hafa sinnt öllu Norður og Austurlandi til fjölda ára. Það var ekki leitað til okkar varðandi tilboði í þessa árshátíð sem er frekar skrítið þegar allur tækjabúnaður er á svæðinu og öll kunnátta til staðar til þess að halda veislu af þessari stærðargráðu,“ segir Hinrik.
Þá bendir hann á að allur tækjabúnaður fyrir veislu af þessari stærðargráðu hafi nú þegar verið til staðar vegna 600 manna árshátíðar Alcoa sem haldin var á Reyðarfirði helgina á undan.
„Því stóð allur búnaður óhreyfður og ekki í notkun í nánast næsta húsi. Það hefði verið mjög ódýrt og einfalt að setja hann upp fyrir þau og halda flotta veislu fyrir brot af þeirri upphæð sem þau greiddu til Exton. Sá búnaður kom að mestu með bíl frá Reykjavík, sem er auðvitað galið sama hvernig litið er á málið.“

Hinrik telur mikilvægt að vekja athygli á málinu þar sem fyrirtæki á Norður- og Austurlandi sem séu í erfiðu samkeppnisumhverfi við stóra aðila í Reykjavík hafi ekki fengið tækifæri til að skila inn tilboði í jafn stórt verkefni og árshátíð Landsvirkjunar.
„Að auki er hægt að benda á að engin af þeim stórum leigum hér heima fengu að skila inn tilboði heldur, þá er ég að tala um Luxor, Hljóð X og Sonik,“ segir Hinrik.