Um er að ræða Tik Tok Lite, þar sem einstaklingar eru verðlaunaðir með inneignum og gjafakortum fyrir að horfa á myndskeið, bjóða vinum á miðilinn og „fylgjast með“ síðum.
Framkvæmdastjórnin hefur verulegar áhyggjur af þjónustunni og áhrifum hennar á börn en verðlaunakerfið búi til hvata fyrir ungmenni til að verja enn meiri tíma en þau gera nú þegar í að horfa á efni á símtækjum sínum.
Bent er á þá staðreynd að mikil net- og samfélagsmiðlanotkun hafi skaðleg áhrif á andlega heilsu ungmenna. Þjónustan verði mögulega bönnuð ef stjórnendum Tik Tok tekst ekki að sýna fram á að skref verði tekin til að takmarka þessi skaðvænlegu áhrif.
Thierry Breton, framkvæmdastjóri stafrænna málefna, hefur líkt Tik Tok Lite við sígarettur og segir að á sama tíma og um sé að ræða skemmtilega afþreyingu og leið til að tengjast öðrum, bjóði Tik Tok einnig hættunni heim þegar kemur að fíkn, kvíða og þunglyndi.
Talsmaður Tik Tok segir ákvörðunina vonbrigði; Tik Tok Lite verðlaunakerfið sé aðeins ætlað einstaklingum 18 ára og eldri og þá séu takmörk á því hversu mörg „verkefni“ notendur geta leyst daglega til að fá verðlaun.
Fyrirtækið eigi í samtali við framkvæmdastjórnina.