Valur þurfti ekki að fara í „8-liða“ úrslit þar sem efstu tvö lið Olís-deildar kvenna fara beint í undanúrslit. ÍBV fór hins vegar nokkuð þægilega í gegnum ÍR en lenti á vegg á Hlíðarenda í kvöld.
Yfirburðir Vals voru gríðarlegir frá fyrstu mínútu og leikurinn nánast búinn í hálfleik, staðan þá 18-11 Val í vil. Þó hægst hafi á sóknarleik Vals í síðari hálfleik þá unnu Íslandsmeistararnir öruggan sex marka sigur, 28-22.
Sigríður Hauksdóttir skoraði sjö mörk í liði Vals, Thea Imani Sturludóttir skoraði fimm og Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði þrjú. Þá varði Hafdís Renötudóttir 10 skot í markinu og Sara Sif Helgadóttir varði fimm skot.
Hjá Eyjakonum var Sunna Jónsdóttir markahæst með sjö mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði fimm og Birna Berg Haraldsdóttir skoraði fjögur.