Veður

Lægð nálgast landið úr austri

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það gæti orðið kalt en á sama tíma bjart.
Það gæti orðið kalt en á sama tíma bjart. Vísir/Vilhelm

Dálítil lægð nálgast nú landið úr austri og verður því norðan- og norðaustanátt í dag. Víða kaldi eða stinningskaldi og dálitlar skúrir eða él, en bjart að mestu um landið suðvestanvert.

Austanlands má þó búast við nær samfelldri slyddu eða snjókomu fram eftir degi. Hiti verður yfir daginn í kringum eitt stig norðaustanlands en allt að 12 stigum suðvestantil.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings að á morgun verði austan strekkingur syðst á landinu, sunnudag, annars hægari vindur. Búsat má við stöku skúrum víða um land og gæti gert stöku skúrir á höfuðborgarsvæðinu, en lengst af þurrt og bjart á Norðvestur- og Vesturlandi. Þá hlýnar heldur í veðri.

Á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, kemur fram að greiðfært er um nærri allt land en þó snjóþekja og krapi á einhverjum fjallvegum og heiðum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Austan 5-10 m/s, en 10-15 syðst. Stöku skúrir, en víða þurrt og bjart á Norðvestur- og Vesturlandi. Hiti 2 til 12 stig, hlýjast suðvestantil.

Á mánudag og þriðjudag:

Norðaustan og norðan 3-10. Skýjað og úrkomulítið, en bjart með köflum um landið sunnanvert. Hiti 2 til 11 stig að deginum, svalast norðaustanlands.

Á miðvikudag:

Suðlæg átt og rigning vestanlands, annars þurrt og bjart að mestu. Hiti 4 til 9 stig.

Á fimmtudag:

Suðvestanátt og víða þurrt og bjart, en skýjað vestantil. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:

Útlit fyrir suðvestanátt með vætu um landið vestanvert, en þurrt á Austurlandi. Hiti svipaður áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×