„Það eina sem vantaði upp á voru sex meðmæli í Vestfirðingafjórðungi og við leystum það bara strax í gær. Þessu verður skilað inn í dag,“ segir Arnar Þór í samtali við fréttastofu.
Aðspurður hvort símtalið frá Landskjörstjórn hafi komið honum á óvart segist hann við öllu búinn. „Það geta fallið brott einstaka atkvæði ef fólk skrifar tvisvar sinnum undir,“ segir hann.
Arnar Þór er í hópi nokkurra forsetaframbjóðenda sem fengu símtal frá Landskjörstjórn þess efnis að þá vantaði fleiri meðmæli til þess að þau næðu upp í fimmtán hundruð.
Ástþór Magnússon, Helga Þórisdóttir og Eiríkur Ingi Jóhannsson stofnuðu öll til annarrar söfnunar á vef Island.is í gær til þess að safna þeim undirskriftum sem upp á vantaði.
Ástþór og Helga sögðust bæði hafa náð lágmarksfjöldanum á ný á örskotsstundu. Eiríkur Ingi birti færslu í gær þar sem hann sagðist vanta fimmtán undirskriftir til viðbótar í Sunnlendingafjórðungi. Ekki er vitað hvort fleiri frambjóðendur hafi þurft að safna fleiri meðmælum.