Sport

Sól­ey Margrét ætlar að verja Evrópu­meistara­titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sóley Margrét Jónsdóttir fékk verðlaun á bæði HM og EM á síðasta ári. Nú ætlar hún sér að verja Evrópumeistaratitilinn.
Sóley Margrét Jónsdóttir fékk verðlaun á bæði HM og EM á síðasta ári. Nú ætlar hún sér að verja Evrópumeistaratitilinn. Kraftlyftingasamband Íslands

Ísland á þrjá keppendur á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem fer fram í Hamm í Lúxemburg næstu daga.

Íslenska fólkið keppir á morgun og á sunnudaginn en þau eru Alex Cambrey Orrason, Sóley Margrét Jónsdóttir og Guðfinnur Snær Magnússon.

Sóley Margrét, sem hampaði Evrópumeistaratitli árið 2023, verður að teljast sigurstrangleg í sínum flokki en Sóley vann einnig til silfurverðlauna á heimsmeistaramótinu í fyrra.

Sóley keppir í +84 kílóa flokki en hennar helstu keppinautar á mótinu eru Katrina Sweatman frá Bretlandi og Valentyna Zahoruiko frá Úkraínu.

Í fréttatilkynningu frá Kraftlyftingasamband Íslands er því slegið upp að Sóley Margrét ætli sér að verja Evrópumeistaratitilinn. Sambandið setur því pressu á sína konu. Sóley keppir sunnudaginn 12. maí klukkan 8:00 að íslenskum tíma.

Alex Cambray Orrason keppir í -93 kílóa flokki og er að mæta á sitt fimmta Evrópumeistaramót en á síðasta ári náði hann fimmta sætinu á EM. Alex keppir á morgun laugardaginn 11. maí klukkan 12:30 að íslenskum tíma.

Guðfinnur Snær Magnússon, keppir í +120 kílóa flokki, en hann er að keppa á sínu þriðja Evrópumóti í opnum flokki. Guðfinnur varð Vestur-Evrópumeistari í kraftlyftingum árið 2023. Guðfinnur keppir á morgun laugardaginn 12. maí klukkan 12:30 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×